miðvikudagur, desember 03, 2008

Takk takk

Nú er Þakkargjörðarhátíðin gengin um garð og svei mér þá ef ég gæti ekki bara haldið uppá hana á hverju ári! Eins og áður kom fram fór ég í heimsókn til Blakes vinar míns til Sugarland sem er í úthverfi Houston. Þar sem foreldar hans skildu fyrir mörgum árum og pabbi hans er nýgiftur og fluttur inn með annarri konu þá hafa Blake og systir hans gamla hús fjölskyldunnar útaf fyrir sig. Sweet! Að sjálfsögðu var því haldið partý kvöldið sem við komum sem endaði í því að eldhúsið var þakið bláu hárspreyi...Eftir að hafa borðað frekar þurran kalkún hjá afa og ömmu Blakes, sem spurðu okkur Flosa spjörunum úr um álit okkar á Jesú, fórum við Flosi með Hönnuh systur Blake's á bar þar sem geðveikt cover band var að spila. Þar komumst við að því að fólk í Houston hefur gaman af því að drekka skot...mörg skot...með mörgum tegundum af áfengi í. Ég var ekki hress daginn eftir. Sem var einmitt afmælisdagurinn minn, JEI!! Við byrjuðum daginn á því að fara í nálægt moll. Íslendingar vita það kannski ekki en dagurinn eftir Thanksgiving er kallaður Black Friday vegna þess að þá eru brjálaðar útsölur og allir Bandaríkjamenn klikkast. T.d lést einn starfsmaður Walmart í NY í ár eftir að hafa verið troðinn undir af æstum viðskiptavinum...viðskiptaÓvinum öllu heldur! HAH!...eða ekki. Allavega, við komumst fljótlega að því að þetta hafði ekki verið besta hugmynd í heimi og fórum því fljótlega heim að reyna að sofa úr okkur þynnkuna. Um kvöldið, eftir að hafa borðað vangefið góðan mat hjá hinum afa þeirra, sem btw er margverðlaunaður meistarakokkur, var svo farið aftur á barinn. Við vöknuðum öll með hálsríg daginn eftir, eftir allt rokkið. Svo heppilega vildi til að Hannah átti afmæli á laugardeginum þannig að við borðuðum á geðveikum sushi stað og fórum síðan á duelling piano bar. Þar er sem sagt svið með tveimur flyglum bak í bak og þar spila menn hvaða lag sem þeir eru beðnir um og segja brandara og svona. Að sjálfsögðu komust þeir að því að við ættum afmæli og kölluðu okkur uppá svið og létu okkur dansa við risastórt uppblásið typpi....ég hef alveg gert minna vandræðalega hluti. Seinna um kvöldið var svo komið heilt band uppá svið í brjáluðum fíling og eftir rúmlega fjögur jellóskot úr sprautu var ég dregin aftur uppá svið...hvað er málið með að þurfa að dansa eins og drusla uppá sviði?? En þrátt fyrir þetta þá skemmti ég mér sjúklega vel og það er ekki laust við að það hafi runnið eitt lítið tár niður vanga minn þegar ég þurfti að snúa aftur til Nac. En hins vegar verð ég komin í jólafrí eftir 9 daga og þá liggur leiðin beint til LA þar sem ég mun meika það í Hollywood áður en ég flýg til Orlando til að hitta fjölskylduna og Mikka Mús. Vei fyrir því!

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Nei þetta er ekki búið!

Ég er bara búin að vera frekar bissí síðustu vikur, ótrúlegt nokk!

Í þar síðustu viku vorum við Flosi með vikulangt spunanámskeið í skólanum. Það kom bara til vegna þeirra ótrúlegu leiðinda sem við höfum gengið í gegnum undanfarið. Ég var sko ekkert að grínast þegar ég sagði að Nacadoches væri krummaskuð. Námskeiðið gekk bara voða vel þó að mæting hefði mátt vera betri, en þar sem að helmingur leiklistardeildarinnar var upptekinn við að æfa stóra söngleik annarinnar,var kannski ekki við öðru að búast. Sem leiðir okkur beint inní síðustu viku:

Partur af náminu hér er að taka þátt í baksviðsvinnu við eitthvað af sýningunum sem settar eru upp í skólanum. Ég var skikkuð til að vera svokallaður dresser fyrir áðurnefndan söngleik, Big River sem byggður er á sögunni um Stikkilsberja-Finn. Vei! eða ekki...í sjö heila daga leit dagskráin mín svona út:

5:30 Mæting.
5:35-5:40 tékkað hvort allir búningar væru á sínum stað.
5:40-7:30 setið á óguðlega hörðum stól fyrir framan búningsherbergi strákanna (kannski vert að minnast á það að aðeins einn þeirra var hot)
7:30-21:15 setið á rassinum í græna herberginu.
21:15-21:20 trítlað baksviðs, rennt upp einum rennilási og hneppt tveimur skyrtuhnöppum.
21:20-22:30 setið á rassinum í græna herberginu
22:30-22:40 setið á óguðlega hörðum stól fyrir framan búningsherbergi strákanna
22:40-22:45 tékkað hvort allir búningar væru á sínum stað
22:45 FRELSI!

Eins og þið getið kannski giskað á var þetta mesta tímasóun í geimi!

Á milli æsispennandi vakta í búningadeildinni hafði ég samt tíma til að leika í stuttmynd. Mjög pretensious og asnalegri stuttmynd...engu engu að síður er það mjög gaman.

Núna á fimmtudaginn er svo hinn alameríski hátíðisdagur Thanksgiving. Ég og sambýlismaður minn erum á leiðinni til hins vel hljómandi Sugarland með amerískum bekkjarfélaga okkar sem við þekkjum eiginlega ekki neitt...það verður áhugavert! Annars er mér alveg sama hvernig verður,ég er svo guðslifandi fegin að komast burt úr Nac.

Það þarf vart að minna alla alvöru vini mína á það að næsta föstudag er stór dagur sem verður haldinn hátíðlegur um allan heim...afmælið mitt!! Ég krossa fingurna og vona að ég fái loksins fílinn sem ég er búin að biðja um í mörg ár. Skellið honum bara í ábyrgðarpóst.

Tveim vikum eftir að við komum til baka eftir Thanksgiving fríið brestur jólafríið loks á. Þá liggur leið mín beint til LA þar sem ég mun syngja hið ódauðlega lag Bran Van 3000 Drinking in LA stanslaust til 22. des þegar ég mun fljúga á vit Disneylands í Orlando að hitta familíuna. Ég hlakka rosalega til, þó að ég muni sakna jólanna á Íslandi. En maður getur ekki alveg neitað fríu fari til Flórída tvisvar er það nokkuð?

Því miður verð ég víst að snúa aftur til Texas heilum 10 dögum áður en nokkur annar gerir það. Ég sé fram á að ég haldið í hefðina og verði full að borða kakkalakka eins og ég geri venjulega þegar ég er skilin eftir ein í útlöndum....

mánudagur, október 27, 2008

Here I go again!

Jæja...ég var víst eitthvað búin að tala fjálglega um það að þegar ég kæmi til Texas myndi ég sko byrja að blogga aftur til að deila ævintýrum mínum með alheiminum. Nú er ég búin að vera hér í tvo mánuði og ekkert bloggað...

Þangað til núna!!

Þessi skyndilega bloggþörf mín hefur ekkert með það að gera að ég á að vera að skrifa Reflective Journal-inn minn, onei! EKKERT! Mig einfaldlega langaði til þess að tjá mig um lífið hér í Nacanowhere.

Eins og þeir skarpari af vinum mínum hafa kannski tekið eftir þá bý ég ekki lengur í Sidcup. Ég bý ekki einu sinni lengur á Íslandi. Tja, eða í Skotlandi. Nei nú bý ég í smábænum Nacogdoches í hinu magnaða fylki Texas í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Og mér leiðist.

Ekki misskilja mig, það hefur verið frábært að fá að kynnast ólíkri menningu og fólki. vandamálið er bara það að bærinn minn samanstendur eiginlega bara af einni götu og háskólacampusinum. Og þegar maður á ekki bíl þá minnka möguleikarnir á því að gera eitthvað skemmtilegt enn meira. En sem betur fer eru þrír af fjórum börum bæjarins í göngufæri frá íbúðinni minni. Það sem verra er er að þessir barir eru: Kúrekakaríókí, R&B næturklúbbur sem spilar engin lög sem maður þekkir, og Redneck pool-bar. Þeir sem geta giskað rétt á uppáhaldið mitt fá verðlaun....

Reyndar eru líka fullt af partýum ef maður vill, en eftir þriðja frat-partýið mitt hefur mesti ljóminn farið að keg-stöndum og beer-pongi. Og leiklistardeildarpartýin ganga aðallega útá það að reykja hass og baktala hina. Vei!

Námið hefur líka valdið mér svolitlum vonbrigðum. Allar kröfur sem gerðar voru til manns í Bruford virðast ekki eiga við hér, það er enginn agi á nemendunum og við fáum voða lítið að gera praktískt! Argh! En hins vegar er aðstaðan á campusinum frábær! Frí líkamsræktarstöð, inni- og útisundlaug, tennisvellir, körfuboltavellir, blakvellir og skvassvellir. Þannig að ég er farin að stunda líkamsrækt. Öll læknishjálp sem lesendur kunna að þurfa á að halda eftir lestur þessarrar setningar er á eigin kostnað. Svo er líka bíó á campusnum þar sem miðinn kostar dollara. Sem sagt 80 ISK þegar ég kom hingað en er nú á 120 ISK. Það er klárlega allt of dýrt.

Hvað á þessi kreppa annars að þýða ha??

En já til að berjast aðeins á móti innilokunarkenndinni sem oft grípur mann hér í Nac hef ég farið í tvær ferðir. Annars vegar til Houston og hins vegar til Dallas. Hér koma nokkrir punktar um þær:


Houston


Ætlaði að fara á tónleika með The Kooks en þeim var aflýst en í staðinn fengum við tónleika með The Wigs. Það voru ekki góð skipti.

Ætlaði að gista á Hilton hóteli, en sökum ofurölvunar ungrar stúlku sem var með í för (sem hringdi sjálf á lögguna)vorum við vinsamlegast beðin að yfirgefa herbergið.

Sat á bar eftir lokun og drakk "girlie shots" með starfsfólki og fastakúnnum.

Fann til notalgíu eftir svipuðum atvikum á Íslandi.

Hitti ameríska stelpu sem var að reyna að læra íslensku og Þjóðverja sem spurðu mig spjörunum úr um lunda. Eins gott að ég er sérfræðingur.

Dallas

Svaf yfir mig í rútuna sökum ofdrykkju kvöldið áður.

Sá staðinn þar sem JFK var myrtur og vafraði um safn honum til heiðurs.

Fór í leikhús tvisvar á eina góða sýningu og eina mjög slæma.

Fór í ævintýraleigubílaferð um ghetto Dallas.

Fór á gay-Halloween-block partý.

Drakk bara einn bjór.

Og hananú!

sunnudagur, apríl 06, 2008

Flassbakk!

Ég læri aldrei af reynslunni:

Sönnunargagn nr.1:
"Sambýlingar mínir stungu af til Slóveníu þannig að núna er ég ein og yfirgefin. Sem þýðir það að ég ráfa um borgina að degi til og spila tölvuleiki full á kvöldin. Bráðum fer ég að borða kakkalakka."

Málsgreinin hér að ofan var rituð í september árið 2006.

Málsgreinin hér að neðan var rituð í apríl 2008.

Sönnunargagn nr.2:
"Sambýlingar mínir stungu af til Íslands þannig að núna er ég og yfirgefin. Sem þýðir það að ég ráfa um bæinn að degi til og horfi á DVD full á kvöldin. Bráðum fer ég að borða maura."

Ójá ég er enn og aftur einmana í útlöndum og undir árás skordýraherja. Því miður er Sidcup ekki alveg jafn áhugaverð og Edinborg. Ég er semsagt að sigla inn í síðustu vikuna af þriggja vikna páskafríi. Ég ákvað að það væri bara vitleysa að fara heim þegar ég gæti notað tækifærið og lært rosalega mikið...riight. Ég er ekki búin að læra neitt og er eiginlega bara í frekar vondum málum.

Það sem ég hef hins vegar afrekað í páskafríinu er þetta:

1) Fór til Wales í rúma viku, en eftir traumatískt kvöld á djamminu í Swansea (eða Glaumbar City eins og ég kýs að kalla hana) nældi ég mér í heiftarlega flensu og lá því uppí sófa restina af ferðinni.

2)Lá í rúminu í rúma viku í viðbót eftir að ég kom aftur til Sidcup.

3)Horfði á alla sjónvarpsþætti sem ég gat fundið.

4)Klippti á mig topp, en nennti ekki að gera neitt í því að hann er skakkari en Amy Winehouse í góðu partýi.

5)Keypti kaffikönnu.

6)Eyddi öllum peningunum mínum í föt sem mig vantar ekki.

7)Tók að mér að keyra hljóðið á sýningu niðrí skóla fyrir kennarann minn hann Steve Dykes (hee!)

En nú fer fríið að verða búið og Íslendingarnir að týnast hingað aftur og hversdagurinn getur tekið aftur við. Verð að segja að hann er mun skemmtilegri en fríin. Vei!

mánudagur, mars 10, 2008

Great Britain??

Eins og dyggir lesendur þessa bloggs muna þá eyddi ég ansi mörgum orðum í það að hneykslast á því hvað Skotar væru aftarlega á merinni í ýmsum málum. Ég taldi mér samt trú um það að þegar ég væri flutt til höfuðborgar Englands að þá gæti þetta ekki verið svo slæmt...ég hafði rangt fyrir mér.

Ekkert í þessu landi virkar. Ever. Tökum sem dæmi gasmælinn á heimilinu. Hann virkar þannig að í honum er kort sem við þurfum að taka út og hlaupa með út í sjoppu þegar við viljum fylla á gasið. Nú er það búið að gerast þrisvar sinnum á stuttum tíma að þegar við stingum kortinu aftur í mælinn að þá kemur hann með hina frekar dramatísku uppástungu: Call help! Við hringjum þá í einhverja þjónustulínu þar sem okkur er sagt að við verðum að bíða eftir gasmanninum í svona 4-5 tíma. 10 tímum seinna mætir hann svo og ýtir á einn takka. Hann vill ekki kenna okkur að ýta á takkann, onei, þetta mega bara faglærðir gasmenn gera. Rugl. Ástæða þessara síendurteknu bilana var okkur svo sagt að gæti verið sú að við búum við umferðargötu. Þegar síminn hætti allt í einu að virka var okkur sagt að það gæti verið af því að símalínan hefði blotnað (við komumst seinna að því að henni hefði verið stolið...actual símalínunni sjálfri!)Sem sagt, ef að vörubíll keyrir framhjá í rigningu þá færumst við nokkrar aldir aftur í tímann! Nú er netið farið að láta illa. Ég get ekki beðið eftir að heyra hvaða útskýringu við fáum núna, kannski er röng vindátt eða eitthvað....

Solo song shareið þar sem ég þarf að syngja einsöng er á fimmtudaginn. Ég er að hugsa um að skera úr mér tunguna svo ég sleppi við það...reyndar er ég nokkuð viss um að söngkennarinn minn myndi samt láta mig syngja, "sing you fuckers!" maður rífst ekkert við svona...

mánudagur, mars 03, 2008

Eins og Fönix úr öskunni

Rís herraforseti upp frá dauðum. Vegna fjölda áskoranna (og alls ekki vegna þess að ég var að gúgla sjálfa mig og komst að því að þetta blogg er með því fyrsta sem kemur upp og fékk samviskubit yfir því að láta visku mína ekki lengur hellast yfir alnetsheiminn)hef ég ákveðið að byrja aftur að blogga. "En Áslaug" segið þið kannski, "blogg er löngu dautt, nú eru bara allir á facebook" "pah!" segi ég við því "ég fylgi sko ekki tískustraumum þegar kemur að því að deila vonum mínum, væntingum og þrám með fróðleiksþyrstum almenningi"

Og þar hafiði það.

Þar sem ég hef ekki bloggað síðan í byrjun síðasta sumars er nánast ógjörningur að ætla að skrifa um allt sem á daga mína hefur drifið síðan þá. Því mun ég gera lista (jei!)

ÞAÐ SEM Á DAGA MÍNA HEFUR DRIFIÐ FRÁ SÍÐASTA BLOGGI:

Ég flutti til Sidcup og byrjaði í skólanum

Ég fann íslenska rónaketti til að hanga með á pöbbnum

Ég keypti mér óeðlilega mikið magn af skóm

Ég söng fyrir framan annað fólk, ódrukkin

Ég sannfærðist um það að aldur er bara hugarástand

Ég fokkaði upp fjármálunum mínum

Ég reddaði þeim aftur (þannig séð)

Ég skemmti mér bara helvíti vel


sko sex mánuðir uppgerðir á einu bretti, djöfull er ég efficient eitthvað...

Jæja, kannski kemur annað blogg seinna, kannski ekki...

þriðjudagur, júní 05, 2007

Good times?

4. júní:

Bogmaður 22.nóvember - 21. desember
Það verður sífellt erfiðara að fela tilfinningar þínar. Blessaðu þig og kastaðu varkárni út um gluggann. Það jafnast fátt á við ást sem felur í sér áhættu.


5. júní:

BOGMAÐUR 22. nóvember - 21. desember
Glæsileiki þinn og útgeislun laða rétta manneskju að þér. Þessi er eins og náttfiðrildi sem sveimar í ljósinu sem stafar af þér. Takið strax til starfa.

Ok, bring it on!